145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tekið þátt í mörgum fjárlagaumræðum á Alþingi en verð engu að síður að segja að þessi umræða er búin að vera mjög undarleg, einmitt vegna þess hvað það hafa komið fram rosalega miklar breytingar bara meðan við höfum talað um málið. Ég fagna því svo langt sem það nær að verið sé að prenta upp álit meiri hlutans í fjárlaganefnd, það er ágætt, en það þarf að gera svo miklu meira. Ég tel ekki að hv. formaður fjárlaganefndar sé ábyrgur fyrir öllu því sem hér hefur misfarist. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir getur auðvitað ekkert gert að því að það hafi verið gert samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í gær, en hins vegar finnst mér hv. formaður fjárlaganefndar bera ábyrgð á því að umræðan hérna geti farið fram á einhverjum (Forseti hringir.) skynsamlegum nótum. Þess vegna teldi ég að hún ætti að tala fyrir því að umræðunni yrði frestað meðan við greiðum úr því hreinlega hvað það er sem við erum að fást við. Hvernig eiga þessi fjárlög að líta út?