145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil endilega að þessi fundur standi langt fram á kvöld því að enn eru margir þingmenn á mælendaskrá. Þó að þeir viðurkenni ekki að hér sé stundað mikið málþóf snýst þetta um eitthvað annað. Ég hef verið talsmaður þess að hér fari fram vönduð lagasetning og bendi á að ég hef sjö sinnum lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis. Þess vegna er mjög heiðarlegt af mér sem talsmanni þessarar baráttu að láta fjarlægja villu úr nefndarálitinu í þinginu. Annað væri óábyrgt en meira að segja það er gagnrýnt líka, virðulegi forseti. Það er ekki hægt að gera sumum þingmönnum til hæfis. Það er með ólíkindum að reyndir þingmenn sem eru búnir að sitja hér síðan á síðustu öld tali um óvönduð vinnubrögð þegar þeir vita nákvæmlega hvernig frumvörp fara í gegnum (Forseti hringir.) þingið. Auðvitað kemur framhaldsnefndarálit fyrir 3. umr.

Kæru þingmenn. Þið vitið alveg hvernig vinnan við frumvörp er. Að sjálfsögðu kemur framhaldsnefndarálit því að málið fer inn í fjárlaganefnd þegar Vigdís Hauksdóttir er fullrædd í þessum ræðustól undir þeim dagskrárlið sem er kallaður fjárlög 2016.