145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:17]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég harma að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir telji að fjárlögin snúist um hana. Mér finnst hún hafa staðið sig með prýði sem formaður fjárlaganefndar, sér í lagi þegar kemur að fundarstjórn, alveg prýðisgóður fundarstjóri, það verður bara að segjast. Mér þykir mjög gott hjá hv. þingmanni að hafa tekið fulla ábyrgð á þeim rangfærslum sem voru í nefndarálitinu sem mér skilst að verið sé að prenta upp nýtt.

Svo er náttúrlega hitt, að einhverjir milljarðar gleymdust. Eftir því sem kom fram á fundum fjárlaganefndar var það í höndum ráðuneytisins og ekki mikið sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, gat gert. Ég fagna þessari góðu umræðu en harma það ef ég hef tekið þátt í einhverju sem gæti hafa valdið hv. þingmanni vanlíðan þegar kemur að umræðunni um fjárlögin 2016. Ég ætlaði mér einungis að vera (Forseti hringir.) í efnislegri umræðu þannig að ég bið hv. þingmann velvirðingar ef ég hef óvart tekið þátt í öðru.