145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. 2. þm. Reykv. s. hefur fylgst með umræðum vegna þess að ég hef séð hv. þingmann í þingsal. Ég held að hv. þingmaður viti alveg að hér hafa verið mjög efnismiklar ræður þar sem ný sjónarmið hafa komið fram. Umræðan heldur áfram. Það eru ekki allar umræður á Alþingi endilega málþóf, ekki einu sinni þótt þær taki tíma. Þetta eru fjárlög ríkisins.

Nú kemur í ljós að það þarf að prenta nefndarálitið upp aftur. Gott og vel, í þeirri staðreynd felst ekkert persónuníð. Það er fínt að það sé viðurkennt og brugðist rétt við því, (Gripið fram í.) sér í lagi ef hv. þingmaður telur að það þurfi einnig að gera við nefndarálit minni hlutans. Þá er enn meiri ástæða til að fresta hér fundi, halda hann að minnsta kosti ekki á laugardegi, (Gripið fram í: Jú, jú.) hafa hann bara á mánudaginn í staðinn þannig að hægt sé að ræða þessi mál. Þetta er fyrir utan breytingartillögurnar og síðan auðvitað allt málið um hvernig fór með varamennina í dag o.s.frv. Það er ekkert tilefni til að halda þennan fund akkúrat hér og nú. Við getum alveg eins látið þetta bíða til mánudags.