145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Menn eru auðvitað menn að meiri ef þeir eru tilbúnir að leiðrétta vitleysu sem fram kemur í nefndaráliti og leggja sig í líma við að hafa hlutina rétta. Í fjárlagafrumvarpi eru mörg hundruð liðir þannig að auðvitað getur komið fyrir að það verði mistök og gott að menn séu tilbúnir að leiðrétta þau.

Það sem mér finnst fyndið, kannski fyndið á grátlegan hátt, er að menn í meiri hluta fjárlaganefndar skuli muna eftir Guðjóni Samúelssyni með 75 milljónir en ekki eftir kjarasamningum kennara. Þar er komin upp kúnstug staða sem segir ákveðna sögu. Mér finnst það samt fagnaðarefni að menn leiðrétti sig, ég tala nú ekki um þegar það eru staðhæfingar sem hv. formaður fjárlaganefndar hefur ekki bara sett fram í nefndaráliti heldur staðhæft í opinberri umræðu hvað eftir annað.