145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnast það mjög athyglisverðar upplýsingar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur þinginu um að sveifluleiðréttur frumjöfnuður sýni í reynd að afkoma ríkisins mun versna á næstu þremur árum jafnvel. Það finnst mér vera mjög mikil tíðindi. Þá blasir það við að í því sem landsbankastjóri kallaði blússandi góðæri erum við ekki að ná þeirri stöðu sem menn höfðu vænst, að hér yrði ríkissjóður með miklu gildari stoðir, sterkari fætur og gæti létt svolítið á sér með því að fara að borga niður nafnverð skulda. Ekkert slíkt virðist í pípunum. Það er eins og menn hafi ákveðið að hengja hatt sinn á þann möguleika að það komi hingað gnótt fjár úr þeim reytum sem við fáum í okkar hlut í svokölluðum stöðugleikaframlögum, en það mun taka tíma að koma þeim í verð eins og við vitum því að einungis örlítill hluti þeirra er í reiðufé.

Þá sýnist mér að það beri allt að þeim brunni að niðurstaðan, ef maður á að draga eina niðurstöðu af því fjárlagafrumvarpi sem við erum hér að véla um, í því sem landsbankastjórinn kallar blússandi góðæri og flestir telja að sé mikið góðæri, sannarlega meiri hagvöxtur hér en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu en þannig er það líka búið að vera nánast óslitið síðan á miðju ári 2010, er að ríkissjóður undir forustu Sjálfstæðisflokksins skilar samt sem áður bara niðurstöðu sem er rétt við núllið. Það er ekki meira. Við þessa stöðu hefði hann þurft að skila 50–70 milljörðum meira. Þá er rétt að rifja það upp að Sjálfstæðisflokkurinn henti frá sér tekjumöguleikum sem svara nákvæmlega til þeirrar upphæðar.