145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að mæla þetta á ýmsa mælikvarða. Við þurfum svo sem ekki að reyna að notast við hluti eins og sveifluleiðréttan jöfnuð eða hagsveifluleiðréttar spár sem eru vissulega takmörkum settar. Á óvissutímum og breytingartímum eru þau tæki ekki gallalaus til að reyna að mæla hlutina. Ég hef svo sem hallað mér að því að besti mælikvarðinn sé reksturinn á rekstrargrunni að frátöldum óreglulegum liðum.

Ef við lítum bara á heildarjöfnuðinn þá segir það sína sögu að á fimmta eða sjötta hagvaxtarárinu í röð og í því sem bankastjóri stærsta banka landsins kallar blússandi góðæri er afgangurinn á heildarjöfnuði kominn niður í 10 milljarða og núna hafa á tveimur sólarhringum næstum 3 milljarðar í viðbót fokið fyrir borð. Afgangurinn er því kominn niður undir 7 milljarða ef við lítum til breytingartillagna meiri hlutans, gjaldfærslunnar á kjarasamningum kennara og samnings ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðra. Hvað er 7 milljarða afgangur af 700 milljarða niðurstöðutölum fjárlaga? Það er auðvitað ekki neitt. Það er langt innan skekkjumarka enda eru til dæmis forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins augljóslega hundfúlir út í frammistöðu, eigum við að segja sinna manna, ætli það sé ekki eitthvað skylt skeggið hökunni? Þeir sögðu í Morgunblaðinu í gær að þetta væri algerlega óásættanlegt. Það er eins og út úr mínum munni talað þegar þeir benda á þá staðreynd að ríkið megi ekki við neinum mótbyr, þá sé það komið í halla. Það er veruleikinn. Um leið og eitthvað slær í bakseglin eða jafnvel byrinn minnkar þá er ríkissjóður kominn í halla því að undirliggjandi rekstur ríkisins hefur ekkert batnað síðastliðin þrjú ár og mun ekki batna á þessu þriggja ára tímabili að næsta ári meðtöldu ef við horfum til fjárlagafrumvarpsins. Það er einfaldlega veruleikinn.

Komi einhverjar tekjur úr stöðugleikaframlögum eru það óreglulegar tekjur ef eitthvað á skilið að kallast það. Þær verða ekki notaðar nema einu sinni. Langtímaáhrifin verða auðvitað jákvæð í þeim skilningi sem það verður allt notað til að greiða niður skuldir og vaxtakostnaður (Forseti hringir.) lækkar um einhverja milljarða, en það breytir í sjálfu sér engu um undirliggjandi (Forseti hringir.) rekstur ríkisins til lengri tíma litið. (Forseti hringir.) Það er hann umfram allt annað sem við eigum að horfa á, við sem viljum hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi varðandi þróun velferðarsamfélagsins á Íslandi.