145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru allt þrír mjög gildir þættir sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi um tilburði meiri hluta fjárlaganefndar til þess að búa til þessa skrýtnu lögskýringu í nefndaráliti sínu. Sem betur fer eru þetta náttúrlega bara tilburðir meiri hluta nefndarinnar til að búa til lögskýringu og við höfum þegar farið yfir það, ég a.m.k., hvað sé með þetta gerandi. Það voru engar slíkar skilyrðingar í tillögunum sem komu frá ríkisstjórn. Forsætisnefnd óskaði eftir því að nýbyggingaráform Alþingis yrðu tekin með í vinnu ríkisstjórnar og kæmu með tillögum hennar til fjárlaganefndar við 2. umr. Það var orðið við þessu og ég veit fyrir víst að af hálfu fjármálaráðherra eða ríkisstjórnar voru ekki svona skilyrðingar. Það er meiri hluti fjárlaganefndar sem setur þær inn eða er með tilburði til þess. Veruleikinn er sá að þetta verður að engu haft. Forsætisnefnd hefur forræði á þessu máli. Það var ekkert samráð haft við hana. Við höfum verið að undirbúa þessar framkvæmdir, þ.e. undirbúa útboð og hönnunarsamkeppni í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins og þar hefur ekki verið rætt um annað en venjulega verklýsingu og þetta venjulega sem er í slíkum útboðslýsingum, að taka mið af því umhverfi sem byggingin á að rísa í og eftir atvikum ef einhverjir viðkvæmir þættir eru þar í nágrenni eins og gömul hús eða annað slíkt. Það hefur hvergi nokkurn tímann komið upp á borðið og aldrei verið nefnt í forsætisnefnd að binda þetta við einhverjar eldgamlar teikningar eða skissur. Þannig að ég spái því að það verði ekki gert.

Í öðru lagi varðandi Landspítalann og 3 milljarða fjárþörf hans í viðbót við það sem er. Þetta er mat stjórnendanna, þeir þekkja þar best til. Landspítalinn hefur náð góðum árangri í fjármálum sínum undanfarin ár, þrátt fyrir mikla erfiðleika hefur fjármálastjórnin verið traust og honum hefur verið hrósað fyrir það, meira að segja verið verðlaunaður fyrir það af núverandi fjármálaráðherra sem tók að hluta til af Landspítalanum gamlan skuldahala vegna þess að spítalinn hafði staðið svo vel að fjármálastjórninni. Þegar kemur síðan að … (Forseti hringir.) Ætli ég verði ekki að fá að svara þriðja þættinum í seinna svari mínu.