145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé tiltölulega einfalt svar að þar er á ferðinni gamaldags pólitík. Framsóknarflokkurinn reið um héruð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og lofaði miklum hlutum, setti svo stjórnarþingmenn í nefnd eða var með þá í einhverjum nefndum og síðan er farið að rukka um einhverjar efndir á því af hálfu heimamanna sem skiljanlegt er þegar þeim eru gefnar væntingar um mikla hluti, flutning stofnana og starfa og ég veit ekki hvað og hvað sem ekkert er nú reyndar að verða af. Þá er brugðið á það ráð að sulla inn í fjárlög upp á gamla móðinn handhófskennt einhverjum fjárveitingum inn í einn landshluta undir þessu yfirskini. Þetta er gamaldags pólitík sem mér finnst heldur dapurlegt að horfa upp á.

Nú vil ég þessu landsvæði að sjálfsögðu vel og ég dreg ekkert úr því að Norðurland vestra er í þörf fyrir stuðning, það eru reyndar fleiri svæði á landinu, Vestfirðir, Skaftafellssýslur og svo framvegis. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið. Auðvitað værum við með miklu betra tæki í höndunum til þess að gera þessa hluti með því að setja stóraukinn kraft í sóknaráætlanir landshlutanna. Ef menn teldu ástæðu til að endurskoða skiptahlutföllin innan sóknaráætlunar og segðu: Það þarf meira á Norðvesturland, meira á Vestfirði, meira í Vestur-Skaftafellssýslu, eitthvað svoleiðis, þá væri það málefnalegt. Menn létu síðan heimamenn um að velja verkefni, forgangsraða þeim og setja í þau fjármuni. Ég efast ekkert um að Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra væru fær um það.

Aðeins aftur að Landspítalanum og samningum um einkareknar heilsugæslustöðvar eða einkareksturinn í heilbrigðiskerfinu, hvort sem er. Hv. þingmaður nefnir réttilega mjög mikilvæga breytu þar, það er sú undarlega staðreynd að menn virðast vera alveg tilbúnir til, ef þeir eru komnir með samning við einkaaðila um einhverja þjónustu, að bæta þar upp magnaukningu og meiri fjölda sjúklinga og svo framvegis. En þegar opinbera heilbrigðiskerfið á í hlut þá fær það ekki sömu meðhöndlun. Það er bara það sem er verið að segja við Landspítalann, (Forseti hringir.) það á að pína hann eða kvelja hann til þess að reyna að standa undir hlutverki sínu með ónógum fjárveitingum þótt spítalinn sjálfur bendi á að vegna (Forseti hringir.) fjölgunar aldraðra, nýrra lyfja og þarfarinnar fyrir ný tæki og svo framvegis þurfi hann 3 milljarða í viðbót til að geta sinnt (Forseti hringir.) sínu lögbundna hlutverki.