145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um uppbyggingu í innviðum og fjárfestingu í þeim, vegna þess að við hljótum öll að vera farin að hafa talsverðar áhyggjur af þeim. Nýframkvæmdir í vegagerð til dæmis hafa nánast engar verið í tíð þessarar ríkisstjórnar og þær sem hafa þó farið af stað eru ákvarðanir sem voru teknar af ríkisstjórnum þar á undan, ekki eingöngu fyrri ríkisstjórn heldur líka ríkisstjórninni sem náði enn lengra aftur, eða 2007–2009. Það er eins og þessi ríkisstjórn taki ekki neinar ákvarðanir um nýframkvæmdir og menn hafa beinlínis sagt að það sé ekki forgangsatriði vegna þess að þeir hafa ákveðið að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti. Þetta þýðir líka að framlög til vegamála á Íslandi eru í sögulegu lágmarki og hafa verið síðastliðin ár eftir náttúrlega metár 2008 ef ég man rétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif hann telji að þetta hafi til lengri tíma. Hversu lengi geta menn haldið áfram að svelta vegakerfið um fjármagn án þess að það fari að hafa veruleg áhrif á öryggi þeirra sem það nota? Álagið á vegakerfið núna er miklu meira en nokkurn tímann fyrr út af fjölda ferðamanna og ég held að það sé rétt að menn fari að horfa á þetta líka út frá öryggissjónarmiðum. Það er enginn lúxus að vera með sterka innviði. Það er nauðsyn og í þessu tilfelli beinlínis öryggisatriði.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvað hann telji að menn geti haldið lengi svona áfram að svelta þennan málaflokk og hvort hann telji að við þurfum ekki að reyna að ná þverpólitískri samstöðu um fjárfestingaráætlun til lengri tíma til þess að vinna upp þennan tapaða tíma í samgöngumálum.