145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega vandinn í þessu öllu saman, menn tala eins og það sé sjálfsagt mál að forgangsraða með þeim hætti að setja samgöngumál til hliðar. Ég hafði framan af tilhneigingu til þess að taka það trúanlegt að menn þyrftu að láta aðra hluti ganga fyrir og gætu þá látið þetta bíða á meðan og hugsanlega yrði þetta að einhverju leyti lakara. En það sem gerist þá er einmitt það sem hv. þingmaður og aðrir hafa verið að segja, þá er verið að búa til svo mikinn nýjan kostnað, það verður enn dýrara að byggja þetta upp aftur ef menn láta þetta danka svona lengi. Þegar maður skoðar framlögin t.d. til samgöngumála þá var náttúrlega sögulegt hámark í því 2008, gríðarlegar miklar fjárfestingar í samgöngum og áfram 2009. Árið 2010 voru framlögin hærri en þau eru 2015. Þannig að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að geyma þessi mál alfarið og þess vegna hefur maður áhyggjur. Á sama tíma og menn hafa ákveðið að láta vegakerfið svolítið eiga sig hefur álagið á það aukist mjög verulega og segja má að nýframkvæmdir séu líka algjörlega stopp.

Ég held að alvöruframkvæmdir og úrbætur í samgöngumálum séu einhver besta byggðauppbyggingin sem við getum ráðist í, ein besta aðgerðin til styrkingar byggðum landsins. Mér fannst áhugaverð rannsókn sem Andrea Hjálmsdóttir og fleiri voru að kynna frumniðurstöður af í haust ef ég man rétt og mér fannst ótrúlega merkilegt að þar kom t.d. fram að Héðinsfjarðargöngin hefðu haft gríðarlega jákvæð áhrif á konur á þessu landsvæði (Forseti hringir.) og stöðu þeirra. Mér finnst því slakt að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að ýta þessum málaflokki algjörlega til hliðar og ég tel að það komi niður á (Forseti hringir.) öryggi veganna, ferðamálum og líka byggðaþróuninni.