145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála því. Við eigum að leggja þetta karp til hliðar. En það sem ég óttast er að í raun sé það svo að það sé pólitísk afstaða að vilja viðhalda tekjubilinu, vilja viðhalda ójöfnuðinum, vilja ekki berjast gegn fátækt. Ég óttast að það sé beinlínis ákvörðun. Hvernig er staðan núna? Við vitum að einn af hverjum tíu Íslendingum nær ekki endum saman. Við vitum að það er raunveruleg fátækt í landi sem er fjórtánda ríkasta land í heimi. Við vitum líka að þær tölur sem hér er verið að ræða, sem eru sanngjarnar kröfur, duga því miður heldur ekki til að koma öllu þessu fólki út úr fátækt, heldur eru þær bara sanngjarnar kröfur, en að verða ekki við þeim er vísvitandi ákvörðun um að viðhalda fátækt á Íslandi á meðan það er kannski okkar stærsta verkefni að freista þess að útrýma henni.