145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir stöðu máls sem hún drap á um fyrri part ræðu sinnar, stöðu byggingarframkvæmda á þingreitnum. Eins og fram hefur komið er það partur af tillögum meiri hluta fjárlaganefndar að veitt verði fé til að byggja hér hús. Ég er í sjálfu sér sammála því. Við höfum fengið að sjá reikninga sem teikna til þess að slík bygging mundi greiða sig upp á 18 árum en þá bregður svo við að þegar þessi tillaga kemur inn í þing er hún tengd því að húsið eigi að byggja eftir tæplega 100 ára gömlum skissum Guðjóns Samúelssonar. Sá maður var auðvitað mætur mjög og skildi eftir sig merka arkitektúríska arfleifð, en hér er einungis um að ræða skissur að húsi sem átti að vera á öðrum stað og við allt aðrar aðstæður. Það sem gerir þetta mál skrýtnara, að ég segi ekki skondið, er sú staðreynd að tillaga sem kom til nefndarinnar frá ríkisstjórninni tengdi þetta með engu við neinar sérstakar teikningar.

Þá er komin upp sú staða að fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin hafa ekki sett fram neinar sérstakar óskir um það. Það sem er allra merkilegast er þó að forsætisnefnd þingsins sem fer með málefni þess hefur ekki sett fram neinar óskir um þetta heldur og er þessu beinlínis andsnúin. Er það þá í valdi einhvers tiltekins hóps manna sem með engu móti er hægt að segja að hafi forræði yfir málefnum þingsins að knýja svona fram? Hver er staða þessa máls?

Ég spyr hv. þingmann bæði af því að hún gerði þetta að umræðuefni en hún er líka formaður þingflokks og ég vænti þess að svona hlutir séu ræddir þar.