145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er raunar komið fram í orðaskiptum milli annarra þingmanna undir þessari umræðu að einn varaforseta þingsins, raunar sá sem nú situr á forsetastóli, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sagðist í ræðu sinni líta svo á að þessi texti væri markleysa, að á honum væri ekki mark takandi og að enginn mundi taka mark á honum. (ÖS: Tökum við þá ekki mark á Vigdísi?) Ég vil ekki nefna hana á nafn meira en ég hef gert í dag vegna viðbragða hennar hér fyrr í dag. Það liggur alveg fyrir að við forsætisnefnd var ekki haft neitt samráð um þennan texta, sem hefur haft með þessi áform að gera. Þessi texti fór ekki í gegnum þá nefnd og enga umræðu þar. Þetta er bara eins og hver önnur vitleysa. Því miður held ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé nokkuð rausnarlegur að reikna það þannig að þetta snúist um skopskyn forsætisráðherra. Ég held að þetta snúist um annað.