145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta prýðilega svar hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Ég velti því fyrir mér í framhaldinu sem ég sá í breytingartillögu í fjárlagafrumvarpinu, að gert er ráð fyrir 600 milljónum minna í Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Ástæðan þar að baki er að færri nemendur sækja í hann, rétt eins og hv. þingmaður reifaði. 600 milljónir eru töluvert mikill peningur. Við erum að tala um að meðalnámslán á ári hjá fólki er ekki meira en kannski 2 milljónir, það er ekki nema í undantekningartilfellum sem þau eru miklu meira en það. Við erum að tala um alla vega 300 námsmenn sem eru ekki lengur í námi, sem sækja ekki í þennan lánasjóð.

Ég veit að samkvæmt þeim tölum sem Háskóli Íslands sendi okkur hv. þingmönnum þá hafa einungis um 100 færri nemendur sótt um háskólann á milli ára. Þannig að ég spyr: Hvar er þetta fólk? Við erum að tala um að árgangar 1988–1992 eru mjög stórir. Ég veit það, sem var í grunnskóla og er úr þessum árgangi, að það þurfti að byggja við fjölmarga grunnskóla og hagræða þannig að allir kæmust að.

Ég spyr því: Er fólk á mínum aldri hætt að sækja um námslán eða er einfaldlega betra fyrir það að vera á vinnumarkaðnum og taka allt í hálfu námi? Hvers lags háskólasamfélag er það sem gefur fólki ekki tíma til að sinna akademísku námi, þar sem er hagstæðara fyrir það sem námsmenn að vinna en að vera á námslánum einfaldlega af því að námslánin halda því í ákveðinni fátæktargildru?