145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þá kannski réttara að segja að við viljum öll hafa aðgang að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, en svo er spurning hvernig aðgangurinn er, hvort hann sé gegn gjaldi eða ekki og þar greinir okkur á. Við samfylkingarfólk viljum að jafn aðgangur sé og ég veit að flokkur hv. þingmanns deilir þeirri lífssýn líka, þ.e. að sami aðgangur sé fyrir alla og hann sé óháður efnahag.

Aðeins aftur um það sem ég var að segja í lokin áðan, þ.e. að mér finnst við dálítið föst í einhverjum kreddum, föst í einhverri gamalli hugmyndafræði þegar kemur að — ég ætla að leyfa mér að tala sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að það virkar alltaf ágætlega að spila spóluna um lækkun skatta, einföldun skattkerfisins og eitthvað svona, en svo spyrja menn sig sjaldnar spurningarinnar: Hvaða áhrif hefur það? OECD hefur hins vegar spurt þeirrar spurningar. Skýrsla var gefin út af þeim í desember á síðasta ári þar sem fram kom beinlínis — OECD hefur ekki verið þekkt fyrir að vera sérstök kommúnistasamtök eða sósíalistísk hreyfing — að aukinn jöfnuður gerir samfélög sterkari. Þess vegna sé það réttlætanlegt að endurdreifa fjármunum í gegnum skattkerfið og ef menn ætla að endurdreifa fjármunum í gegnum skattkerfið og auka jöfnuð, þá þarf að vera með þrepaskiptingu í skattkerfinu sem þýðir: Það verður ekki alveg eins einfalt.

Mér finnst að menn þurfi að fara að horfast svolítið í augu við raunveruleikann. Hvaða afleiðingar hafa gjörðir manns og ná gjörðirnar markmiðunum? Í þessu tilfelli er það algerlega klárt að ef menn vilja sterkari samfélög og stærri köku, þá eiga þeir að auka jöfnuð.