145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

bætur almannatrygginga og lægstu laun.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum mikið fjallað um það á undanförnum dögum og vikum hvort bætur almannatrygginga eigi að hækka með sama hætti og kjarasamningar í landinu um lágmarkslaun gera ráð fyrir. Hæstv. fjármálaráðherra ræddi þetta í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær og gaf þá yfirlýsingu um að ekki væri að búast við breytingum að þessu leyti. Það vekur sérstaka athygli í ljósi þess að við höfum heyrt frá einstökum þingmönnum stjórnarflokkanna alvarlegar efasemdir um þá leið sem stjórnarflokkarnir feta í þessu máli. En hæstv. fjármálaráðherra gekk lengra og sagði, með leyfi forseta:

„Það er líka til fólk sem er í fullu starfi, vaknar snemma á morgnana og vinnur allan daginn við að hafa í sig og á og sitt fólk. Það hefur ekki meira á milli handanna en þeir sem treysta á bæturnar.“

Mér finnst þetta mjög sérkennileg ummæli í ljósi þess að fólk sem er á ellilífeyri eða örorkulífeyri hefur ekki val um það að vakna á morgnana og vinna fyrir sér. Ef um aldraða er að ræða þá er fólk bundið af eftirlaunaaldri og í tilviki örorkulífeyrisþega getur fólk ekki unnið fyrir sér.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað eiga þessi ummæli að þýða? Hvert er hann að flytja umræðuna með því að grafa einhvern veginn undan samstöðu í samfélaginu um að lífeyrisþegar eigi að njóta jafnstöðu á við fólk á lægstu launum, og reyna að skapa til einhverja úlfúð á milli fólks á lægstu launum og lífeyrisþega, reyna að gefa þá ímynd að það sé ógn við þá sem vinna fullan vinnudag, því það er það sem má ráða af þessum ummælum, ef lífeyrisþegar fái mannsæmandi (Forseti hringir.) og sambærileg kjör? Hvað eiga þessi ummæli að fyrirstilla?