145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

bætur almannatrygginga og lægstu laun.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem gerist núna um áramótin er að bætur almannatrygginga hækka að fullu til jafns við launaþróun í landinu og munu þess vegna hækka um 9,7%. Þegar við bætist 3% hækkun frá 1. janúar á þessu ári þá er alveg ljóst að bætur hafa á þessu 12 mánaða tímabili hækkað umfram almenna launaþróun í landinu. Síðan eru dagsetningar í kjarasamningum sem geta leitt til þess þegar fram í sækir að þessi tröppugangur gengur eitthvað á mis og hvor hópurinn getur fari fram úr hinum. En í þessu samhengi er gríðarlega mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er fólk á vinnumarkaði sem er ekkert mikið betur sett. Menn tala stanslaust fyrir því að bætur hækki og hækki, það þurfi að stórhækka bæturnar, en á sama tíma er fólk í fullri vinnu sem er ekkert mikið betur sett. Hvers vegna skyldi það skipta máli? Það er erfitt að koma því í hausinn á samfylkingarfólki að hvatar skipta máli. Fjölgun öryrkja er t.d. orðið sjálfstætt og sérstakt vandamál og viðfangsefni á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum reyndar líka. Við getum fagnað í sjálfu sér að dregið hefur úr fjölguninni, en hún er raunverulegt vandamál.

Hvað er að gerast á Íslandi? Allt of margir ungir karlmenn festast utan vinnumarkaðar eftir að hafa dottið úr námi eða hafa hrakist úr vinnu einhverra hluta vegna og enda smám saman á örorkubótum vegna andlegra veikinda. Okkur hefur mistekist að styðja þessa hópa. Okkur hefur mistekist að styðja þá til nýrrar virkni eða í heilbrigðiskerfinu til þess að takast á við sín vandamál og gera þá að nýju að virkum þjóðfélagsþegnum. Ef menn þora ekki að taka þá umræðu eru þeir einfaldlega hræsnarar. Það er ekkert annað. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Þeir sem ekki þora að taka þessa umræðu, en þetta er svona. Það sem ég vildi bæta við er að það skiptir máli (Forseti hringir.) fyrir þá sem festast í þessari stöðu að þeir sjái fram á að geta bætt kjör sín með því að verða aftur (Forseti hringir.) virkir þjóðfélagsþegnar.