145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mál tveggja albanskra fjölskyldna hafa verið til umræðu í samfélaginu undanfarna daga, eðlilega af því að þar er um að ræða tvær fjölskyldur þar sem börn eru langveik og eiga við erfiða sjúkdóma að etja. Brottvísun þessara fjölskyldna hefur auðvitað vakið mjög hörð viðbrögð í samfélaginu.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að við ætlumst ekki til þess að hæstv. innanríkisráðherra taki geðþóttaákvarðanir um einstök mál en við hljótum hins vegar að spyrja okkur um það kerfi sem við búum við, kerfi sem við á Alþingi, ráðherrar og ráðuneyti smíða, kerfi sem við ætlumst til þess að þjóni okkar markmiðum um gott og mannúðlegt samfélag. Við eigum ekki að vera þjónar þessa kerfis heldur öfugt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að það kerfi sem býður upp á það að þessum fjölskyldum sé vísað úr landi þjóni þeim markmiðum sem við höfum samþykkt með því að fullgilda barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og lögfesta þann sama sáttmála 2013, þar sem kveðið er á um að öll börn eigi rétt til lífs og þroska og við eigum í okkar störfum að gera það sem börnum er fyrir bestu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að núverandi kerfi þjóni markmiðum barnasáttmálans sem við hér inni erum væntanlega öll sammála um að eigi að stjórna því hvað við gerum í lagasetningu okkar og því sem ráðuneyti og opinberar stofnanir gera í sinni framkvæmd, hvort hæstv. ráðherra hafi talað um að einhverjar breytingar þurfi að gera og hvort hún ætli að beita sér fyrir því að þær breytingar verði gerðar á þessu kerfi að við sendum ekki svona veik börn úr landi. Mér finnst það ekki vera rök í málinu, ekki frekar en þegar maður kemur að slösuðu barni á slysstað, (Forseti hringir.) þá hjálpar maður því barni þó að það geti komið önnur börn á eftir. Það geta ekki verið rök í málinu. Við vitum sem einstaklingar hver okkar skylda er og þurfum við ekki að endurhugsa hver skylda okkar sem samfélags er?