145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna.

[10:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er von að spurt sé. Ég var einn þeirra þingmanna ásamt hv. þm. Helga Hjörvar sem lögðu fram frumvarp um lögfestingu barnasáttmálans á síðasta kjörtímabili og hef mjög mikinn skilning á þeim ákvæðum sem þar er að finna. Hér er spurt um kerfið sjálft. Ég held að sé mikilvægt að við höldum okkur við að fara yfir það hvort þær reglur sem við höfum skapað taki utan um það verkefni sem þeim er ætlað að gera og nú stendur yfir eins og við þekkjum endurskoðun á öllu útlendingaregluverkinu.

Vegna þess tiltekna máls sem upp kom fyrir helgina þá er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ráðherra getur ekki stigið inn í slíkt mál og það er miður að málið skyldi ekki hafa ratað til úrskurðarnefndarinnar, það er mjög miður. Á föstudaginn skrifaði ég bréf til Útlendingastofnunar og Rauða krossins og óskaði eftir því, með hliðsjón af endurskoðun laga, að farið yrði yfir það hvernig að málum væri staðið þegar kæmi að börnum sérstaklega og hvernig mat færi fram, af því að ég eins og þingheimur allur þarf auðvitað að skilja hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Ég hef ekki frá degi til dags neinar upplýsingar um slíka þætti, en það er mjög mikilvægt að allt gangverkið sé manni ljóst. Þess vegna óskaði ég eftir viðbrögðum frá Útlendingastofnun, ekki síst á þá lund hvort regluverkið næði utan um þennan tilgang og hvaða breytingar þyrfti að gera á því til að svo yrði. Ég skrifaði jafnframt bréf til Rauða krossins sem við erum með samning við og á grundvelli hans kom ég með ábendingar til ráðuneytisins og ég óskaði jafnframt eftir því að Rauði krossinn gerði með sama hætti þær athugasemdir sem hann teldi til bóta horfa í þessu kerfi þannig að við gætum í framhaldinu haldið áfram að þróa regluverkið.