145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna.

[10:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég fagna því auðvitað að ætlunin sé að fara yfir þetta verklag. Ég veit að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hyggst líka taka þetta mál fyrir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og mér finnst það gott.

Það sem ég hef satt að segja áhyggjur af í þessu máli er að horft hafi verið um of á rammann og við höfum gleymt frumskyldu okkar sem er að koma fólki í neyð til bjargar og sérstaklega börnum í neyð út frá barnasáttmálanum. Ég fagna því þar af leiðandi að fara eigi yfir málið en vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái einhverjar leiðir, óhefðbundnar, til þess að endurskoða þessi mál, hvort hún sjái einhverjar leiðir í stöðunni sem nú er uppi til þess að hægt sé að taka þau fyrir á nýjan leik.