145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

vinnulag við fjárlagafrumvarp.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hér er sagt, það skiptir máli að vera ekki með handahófskenndar ákvarðanir og sérstaklega þegar um er að ræða eldri uppsafnaðan halla þá er það mín sýn, ég hef nýlega rætt það í þinginu, að til verði eins konar staðlað samningsform við viðkomandi stofnanir sem menn geti gengið út frá að haldi þannig að haldi menn sig innan fjárlagaheimilda á næstu árum þá verði gamli hallinn fellur niður með tíð og tíma.

Ég ætla síðan að lokum að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á öðru sem er að við festumst alltaf í umræðunni um fjárlög í þessum smærri fjárheimildum. Hver hefur til dæmis við 2. umr. að þessu sinni borið saman niðurstöðuna við ríkisfjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi um mitt sumar, í júní? Hver hefur velt fyrir sér útgjaldalínunni, hvernig hún hefur þróast miðað við það sem við ákváðum? Hvert stefnir með skuldirnar miðað við það sem við ákváðum? (Forseti hringir.)

Við þurfum að fara að beina sjónum okkar að þessu sviði, langtímaþróuninni, (Forseti hringir.) og spyrja okkur: Er fjárlagafrumvarpið með þeim breytingum (Forseti hringir.) sem þingið mælir fyrir að halda (Forseti hringir.) sig innan þess ramma sem við höfum áður ákveðið?