145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

hælisleitendur sem sendir eru til baka.

[10:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að vekja athygli á því að mín skynjun hefur verið að þá leið þegar ég hef verið að taka þátt í starfi þingmannanefndar um ný lög er varða málefni útlendinga að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að búa til góðan lagaramma og reglugerðarramma um þau mál. Ég verð samt að segja og mér finnst það mikilvægt því að núna eru þeir hlutir að gerast að hælisleitendur eru sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Ítalía er land með svo mikið af hælisleitendum sem koma þangað að Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur beint því til landa að senda fólk ekki þangað. Ítalía og Grikkland eru þau lönd ásamt Ungverjalandi sem Evrópusambandið lagði til að tekið yrði við kvótaflóttamönnum frá, þ.e. yfirflæðisflóttamönnum eða hælisleitendum. Mér finnst það mjög einkennilegt framkvæmd að senda hælisleitendur til Ítalíu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því, því að það er ekki í anda þeirrar vinnu og þeirrar umræðu sem við höfum átt í þingmannanefndinni. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að svo væri.

Nú er alveg vitað að Albanir sem koma hingað og til dæmis Bandaríkjamenn eru sendir strax til baka og ekki er fjallað ítarlega um þeirra málefni á einstaklingsgrundvelli, heldur er fólki hreinlega mokað héðan út, eins og sú framkvæmd núna þar sem hreinlega var komið með 20 lögreglumenn til að taka börn um miðja nótt og þau sett í leiguflug. Þetta er ekki í anda þess sem ég hélt að hæstv. ráðherra vildi að við mundum koma fram við hælisleitendur hérlendis.