145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

móttaka flóttamanna.

[11:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er algjört grundvallaratriði, hversu erfitt sem það kann að vera, að grípa ekki inn í málsmeðferð sem er í gangi. Það má ekki vera í mínum huga, og það verður ekki svo meðan ég er hér, hlutverk ráðherra að gera það. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að menn velti fyrir sér hvernig áfram skuli halda með mál og læri af þeim mistökum, eða þeim agnúum á lögum, við skulum orða það þannig, og geri þær lagfæringar sem þarf að gera. Ég vil síðan segja bara í lokin að allar ákvarðanir sem teknar eru hafa áhrif, þær hafa áhrif á einstaklinga, þær hafa áhrif á framhaldið. Þess vegna þurfum við, um leið og við gerum okkur grein fyrir þeim vanda sem að einstaklingum steðjar, að horfa líka til heildarinnar þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Ég er viss um að við munum gera það þegar að því kemur.