145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Jú, við eigum að gera það. Eins og í öllum öðrum málum eigum við að setjast hér niður öll saman og reyna að mynda þverpólitíska sátt um það hvernig þessir hlutir eiga að vera. En þetta er bara einn hluti af því að virða mannréttindasáttmála, stjórnarskrá og annað, það að þetta fólk fái fullan aðgang að samfélaginu eins og við hin. Þetta snýst um það að geta lifað sjálfstæðu lífi. Þetta þýðir meðal annars betri heilsu fyrir þetta fólk. Það er úti á meðal fólks og býr við minni einangrun. Margt fatlað fólk einangrast félagslega og verður bara eins og byrði, hefur ekki sömu sjálfsvirðingu og allir aðrir vegna þess að lítur á sig sem byrði, að það sé fyrir. Ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur haft þessa þjónustu, en áður fyrr var það svo háð því að aðrir hjálpuðu því að það hélt í sér, fór ekki að pissa klukkutímum saman og varð svo veikt í kjölfarið. NPA hefur líka aukið kynjajafnrétti og minnkað ofbeldi sem nóg var af.

Ég er sammála því að málið snýst fyrst og fremst um peninga. Ég hef það á tilfinningunni að ástæðan fyrir því að þetta er ekki komið lengra en raun ber vitni sé sú að það er alltaf verið að horfa í peningana. Við erum alltaf að horfa í þá og þá kemur spurningin um hvernig við viljum forgangsraða þeim. Viljum við forgangsraða þeim í þágu almannaheilla og þeirra sem lakast standa? Það er alveg ljóst að þetta fólk er meðal þeirra sem lakast standa í samfélaginu. Við sjáum með örorkubætur og annað að þetta fólk stendur illa og þess vegna er alltaf spurning um forgangsröðun. Ég vil forgangsraða í þágu þessa fólks og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Það er ótrúleg fátækt líka í landinu. Þótt það sjáist ekkert mjög mikið er það bara staðreynd og margir eiga erfitt. Þetta snýst um forgangsröðun og við eigum að setjast niður, ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um það, finna lausn og láta mennskuna ráða við þá lausn.