145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tilraunaverkefnið hefur verið framlengt. Það er svo sem betra en að verkefnið sé slegið af. Það er líka auðvelt að láta verkefni fatast flugið með því að hafa þau ekki nægilega vel fjármögnuð og þá er svo auðvelt seinna meir að slá þau út af borðinu. Það er náttúrlega gríðarlega alvarlegt mál ef það eru ekki settir nægir fjármunir í þetta því að þá misheppnast þessi tilraun auðvitað.

Mig langar líka að eiga orðastað við þingmanninn um þetta mál í aðeins öðru samhengi. Nú höfum við einnig verið að ræða um hækkanir á bótum til örorkulífeyrisþega. Ég átta mig á því að ekki er allt fatlað fólk endilega örorkulífeyrisþegar. Sumir eru virkir á vinnumarkaði og hafa ekki einu sinni allir farið í örorkumat og hafa ekki þurft á því að halda. Að sama skapi mundu ekki allir örorkulífeyrisþegar skilgreina sig sem fatlað fólk en þarna eru vissulega hópar sem skarast mjög mikið.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra talað um, eða ég hef skilið hann svo, að bætur eigi að vera lægri en lágmarkslaun vegna þess að annars sé hreinlega kominn hvati fyrir fólk á lágmarkslaunum til að fara inn í bótakerfið, en að sama skapi erum við alltaf að tala um að við þurfum að hvetja öryrkja til að verða virkir á vinnumarkaði og jafnvel er verið að tala um að koma á laggirnar á starfsgetumati.

Er hv. þingmaður sammála mér að umræðan sé í algerum hrærigraut og það sé bara eins og menn viti ekki alveg hvað þeir vilji með þennan málaflokk og (Forseti hringir.) hvernig eigi eiginlega að haga þessum málum?