145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að núna þegar hagur ríkissjóðs og Íslands vænkast skuli standa svo mikill styr um fjárlagafrumvarpið. Þetta er þriðja fjárlagafrumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og það er allt í uppnámi í stærstu útgjaldaliðunum, almannatryggingum og heilbrigðiskerfinu. Þar er mikil óánægja og ríkisstjórnin virðist halda sig við sitt verklag, stígur ekki inn í umræðuna til að átta sig á hvað sé í gangi og reyna að minnsta kosti að sýnast vilja finna lausnir á þessu heldur er bara svarað með stríðsyfirlýsingu. Nú er verið að reyna að sannfæra lífeyrisþega um að þeir hafi það mjög gott og þeir þurfi engar sanngjarnar eftiráleiðréttingar eins og launafólk og við sem heyrum undir kjararáð í stað þess að fara yfir rök sem þeir færa fram í máli sínu.

Það sama má segja um heilbrigðiskerfið. Þar rís upp yfirstjórn Landspítalans, læknaráð Landspítalans og einstaka læknar, en því er svarað með skætingi og þegar þjóðþekktur Íslendingur, Kári Stefánsson, fer fram af töluverðri hörku eins og honum er kannski lagið en af fullu réttmæti vegna áhyggna af íslenska heilbrigðiskerfinu, þá svarar hæstv. forsætisráðherra í blöðunum ekki með rökum heldur með því að reyna að gera lítið úr sama manni og bar fram gagnrýnina. Hann hristi það náttúrlega af sér og átti ekki erfitt með það og ég hef grun um að stór meiri hluti þjóðarinnar sé með honum í liði í þessari ritdeilu.

Mig langar í þessari ræðu til að tala um ríkisfjármálin í heild sinni, mig langar að koma betur inn á flóttamenn og hælisleitendur og fara síðan í heilbrigðiskerfið. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að ég var hissa á því að hæstv. forsætisráðherra, sem svaraði einmitt Kára Stefánssyni með skætingi en ekki rökum, maðurinn sem hefur talað fyrir því að stjórnarstefna hans byggi á róttækri rökhyggju, hefði fært fram lítið af rökum. Hann sagði þegar hann talaði um fjárlögin að þetta væru velferðarfjárlög. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að ekki er verið að auka hlut velferðarmála í ríkisútgjöldunum. Það er ágæt samantekt á bloggsíðu frá Indriða H. Þorlákssyni sem þekkir ríkisfjármálin mjög vel eftir að hafa verið ríkisskattstjóri um árabil og síðan sérstakur aðstoðarmaður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fjármálaráðherra. Í þessum pistli sem hefur yfirskriftina „Að tala tungur tvær“ sýnir hann ágætlega fram á þróun ríkisútgjalda. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í orð hans þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Síðasta ríkisstjórn skar ríkisútgjöld niður, þar með útgjöld til velferðarmála, um ca. 1,5% af VLF frá því sem var fyrir hrun, nú ígildi um 30 milljarða króna, til að bjarga ríkissjóði úr vonlítilli stöðu eftir hrun bankakerfisins. Það ásamt lagfæringu á niðurníddu skattkerfi o.fl. dugði til þess að á fimmta ári eftir hrun, árið 2013, má segja að hvað ríkisfjármál varðar hafi hruninu verið lokið og jafnvægi náð í ríkisbúskapnum. Núverandi stjórnvöld ætla sér að bæta um betur og skera ríkisútgjöld niður til viðbótar um 2% af VLF, nú ígildi um 40 milljarða króna. Ekki til að bjarga ríkissjóði frá aðsteðjandi vanda heldur bjarga tekjuhæstu og eignamestu þjóðfélagsþegnum frá því að borga eðlilegan hlut til samfélagsins og tryggja að þeir sem fénýta náttúruauðlindir landsins í eigin þágu geti gert það áfram án verulegs endurgjalds til eigandans.“

Þetta er ansi upplýsandi því að við erum núna á þessu kjörtímabili í raun að ganga í gegnum meiri niðurskurð en við gerðum á árunum eftir hrun. Við í Samfylkingunni og Vinstri grænum sem stóðum í þessum verkefnum höfðum ansi mikið fyrir þessu og fengum heldur betur að heyra mótmæli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við þeim niðurskurði en við vorum eins og englar á olíubuxum í samanburði við núverandi ríkisstjórn. Það er einmitt þessum áformum þeirra sem við erum nú að reyna að hnekkja af því að við teljum þetta stórskaðlegt og við teljum að ríkissjóður eigi að vera miklu burðugri en núverandi ríkisstjórn telur. Við viljum verja almannaþjónustuna og við viljum verja tekjujöfnunarkerfin, þar með talið heilbrigðiskerfið og almannatryggingar. Þess vegna mótmælum við skattalækkunum á þá tekjuhæstu og lækkun veiðigjalda og þess vegna mótmælum við því að ekki sé verið að setja nægilegt fjármagn inn í mikilvægustu málaflokka ríkisins.

En nú að hælisleitendum. Ég gagnrýndi það í fyrri ræðu minni að af þeim 2 milljörðum sem átti að nýta í sérstakt átak til að koma til móts við þann gríðarlega flóttamannastraum sem nú er til Evrópu sé verið að nota yfir fjórðung í útgjaldaliðinn hælisleitendur. Ég er algerlega sammála því að þar þurfi að leggja til þessa 537 milljónir sem koma til viðbótar inn í þann málaflokk á þessu ári og næsta ári en þeir fjármunir hefðu þurft að koma til engu að síður og það er fremur lúalegt bragð að setja þá inn í þennan aðgerðapakka. Þetta hefði þurft að vera sjálfstæð fjárveiting óháð aðgerðapakkanum, enda er hér vaxandi straumur hælisleitenda eins og er um alla Evrópu og kemur til af annars vegar hrikalegum styrjöldum og hins vegar valdamisvægi og efnahagslegum ójöfnuði. Þá þurfum við sem rík þjóð að greiða okkar gjald fyrir það og þar eigum við ekki að vera með nein undanbrögð.

Þegar gerðar voru breytingar á lögum um útlendinga sumarið 2014 þá lögðumst við í Samfylkingunni, VG og Píratar gegn því að sett yrði inn ákveðið ákvæði sem heimilaði Útlendingastofnun að halda lista yfir svokölluð örugg ríki. Við óttuðumst að það mundi leiða af sér ákveðna rútínuafgreiðslu á hælisumsóknum frá svokölluðum öruggum ríkjum. Ég ætla að taka sem dæmi málefni Albananna sem voru reknir burt frá Íslandi undir lok síðustu viku. Það hefur að því er mér skilst, ég er búin að leggja fram fyrirspurn til að fá það skjalfest, engum Albana verið veitt alþjóðleg vernd hér en við óttuðumst einmitt að hér yrði rútínuafgreiðsla í stað þess að málefni hvers og eins yrðu tekin fyrir með málefnalegum hætti. Tvö alvarlega veik börn voru í þessum hópi, annað barnið með erfðasjúkdóm sem leiðir til þess að börn ná oft ekki fullorðinsaldri af því að þau fá ekki viðunandi heilbrigðisþjónustu og er mjög erfitt að fást við þann sjúkdóm, og hins vegar barn með alvarlegan hjartagalla. Nú fær maður þær upplýsingar að svo virðist sem ekki hafi verið fengið álit lækna þessara barna og maður veltir fyrir sér: Nú er Albanía á lista yfir örugg ríki, hvaða gagnaöflun á sér stað til að meta aðstæður þeirra sem hingað koma? Við vitum að í Albaníu tíðkast og er enn við lýði, ég þekki þó ekki umfang þess, svokölluð blóðhefnd sem við þekkjum vel úr Íslendingasögunum og þar meta margir það sem svo að þeir njóti ekki verndar hins opinbera þegar aðrir einstaklingar taka lögin í sínar hendur og lífi þeirra eða þeirra nánustu er ógnað. Ég spurði einnig í fyrirspurninni sem ég lagði fram hvernig háttað væri hælisumsóknum Albana til annarra Norðurlanda og hversu háu hlutfalli þeirra umsókna væri hafnað. Það er ekki endilega þannig samkvæmt núgildandi lögum að allir sem leiti hér alþjóðlegrar verndar eigi að fá hana en það eiga allir að fá hlutlausa meðferð óháð og það er einmitt það sem við höldum að hafi ekki gerst í þessu máli. Samfélagið er nánast á hliðinni og stór hópur fólks er að vinna í því að fá þessari ákvörðun hnekkt og segja má að mikill ófriður ríki í málaflokknum.

Nú er það svo að við höfum sett þessi mál til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar en það breytir ekki því að þeir sem fara með löggjafarvald og framkvæmdarvald, alþingismenn og ráðherrar, geta haft skoðun á þessu og gripið inn í telji þeir að lögum sé ekki fylgt. Það er of margt í þessu máli sem bendir til að ekki hafi verið unnið af hlutleysi og virðingu fyrir lögum um að allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð þar sem farið er ofan í málin en ekki stuðst við svokallaða örugga lista.

Í fyrri ræðu minni fjallaði ég töluvert um almannatryggingar. Ég ætla að einblína frekar á heilbrigðiskerfið núna en hver veit nema ég komi í aðra ræðu um lífeyristryggingarnar ef tækifæri gefst til. Við höfum miklar áhyggjur af Landspítalanum og fjárveitingum þangað. Aldrei er góð vísa of oft kveðin og ég vil minna á að það sem sameinar Íslendinga hvað varðar ríkisfjármálin er viljinn til að skattfé sé forgangsraðað til heilbrigðisþjónustu og að við viljum að heilbrigðisþjónusta sé fyrst og fremst á hendi hins opinbera. Frá Landspítalanum, þessari mikilvægu stofnun í heilbrigðiskerfinu, heyrast núna ramakvein og bent er á að verið sé að gera stofnuninni ógerlegt að halda sig innan ramma fjárlaga að óbreyttu. Það vantar umtalsverða fjármuni og þar er ekki verið að biðja um lúxus. Það er verið að biðja um lífsnauðsynlegar fjárveitingar til að geta haldið í horfi með starfsemina. Í því felst að veittir verði fjármunir í viðhald af því að húsnæðið er í svo slæmu ásigkomulagi að það er víða ekki hægt að nota það. Þetta eru algerir forgangsfjármunir í allra brýnustu verkefnin, þetta er ekkert dúllerí og vesen. Það er bara verið að reyna að koma í veg fyrir myglu og leka. Við sáum myndir af Grensásdeildinni, þar sem er beinlínis stórhættulegt ástand og algerlega óviðunandi að jafn veiku fólki og þar er, alvarlega slösuðu, heilsufarsástand alvarlegt, sé boðið upp á húsnæði af þessu tagi. Það er það sem við leggjum til að verði lagðir fjármunir í. Síðan þarf að bæta upp um 400 milljónir vegna kjarasamninga sem vantar upp á til að Landspítalinn geti staðið við kjarasamninga. Hann mun náttúrlega þurfa að gera það en þó með hallarekstri ef þessir fjármunir koma ekki til og/eða þá fækkun starfsfólks og nóg er nú komið af því, heldur betur, það þyrfti að fjölga. Svo leggjum við til fjármuni, rúmar 600 milljónir til að mæta aukinni þjónustuþörf vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og svo er okkur nú að fjölga, svo heppilega vil til, þannig að Landspítalinn þarf að fá fjármagn til að mæta því.

Hvert var viðmótið við forstjóra Landspítalans og meðstjórnendur hans í yfirstjórn sjúkrahússins? Jú, þau voru vænd um væl, þau bæðu alltaf um meiri peninga og væru að beita andlegu ofbeldi. Maður trúir þessu ekki. Þetta er stærsta ríkisstofnunin og ein sú mikilvægasta í íslensku samfélagi og tryggir að við erum með bráðaþjónustu og lífsbjargandi þjónustu á Íslandi þar sem er samansafn af okkar helstu sérfræðingum í flóknum lækningum og heilbrigðisstéttum af ýmsu tagi sem tryggja að við getum lifað örugg hér á landi, þannig að við vitum að ef eitthvað kemur upp á þá fáum við bestu mögulega þjónustu. En það er ekki bara forstjórinn sem hefur áhyggjur. Læknaráð og hjúkrunarráð senda líka frá sér áskoranir og lýsa yfir miklum áhyggjum og eins eru einstakir læknar farnir að koma í blöðin til að lýsa yfir áhyggjum sínum. Það er nú þannig að sérfræðingar sem starfa á vegum ríkisins hafa ekki sérstaka þörf eða áhuga á að tjá sig um fjárhagsmálefni stofnana sinna í fjölmiðlum. Þetta er fólk sem hefur menntað sig og lagt mikið á sig til að sinna mjög sérhæfðum störfum og lítur á það sem frumskyldu sína. En þegar of langt er gengið í niðurskurði þá finnur fólk auðvitað til siðferðilegrar skyldu til að tjá áhyggjur sínar. Ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd og ríkisstjórnin hlusti eftir þeim áhyggjum, taki mark á þeim og fari yfir þau gögn sem styðja þennan málflutning. Ef þau vilja mótmæla málflutningnum þá er betra að beita rökum en ásökunum um andlegt ofbeldi eða skætingi um einhvers konar topparahátt. Þegar verið er að tala um fjárreiður Landspítalans – háskólasjúkrahúss þá á sú umræða að byggjast á upplýsingum og rökum, ekki skætingi.

Mér gefst í þessari ræðu ekki tækifæri til að fara jafnframt inn á ótta okkar við einkavæðingu á heilsugæslunni en það komu drög að texta varðandi það inn í fjárlaganefnd og svo var honum breytt þar sem ekki var talað afdráttarlaust um einkavæðingu. Hins vegar mátti heyra í þættinum Sprengisandi um helgina að fjármálaráðherra sagði að það stæði til að einkavæða heilsugæsluna, a.m.k. þrjár stöðvar og hæstv. fjármálaráðherra styddi heils hugar við bakið á hæstv. heilbrigðisráðherra. Það gerum við í Samfylkingunni ekki. Við munum krefjast þess að hann komi hér og ræði við okkur um þessi áform sín en fari ekki gegn vilja þjóðarinnar í skjóli nætur.