145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Ég veit að margt af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns er henni hjartfólgið og mjög mikilvægt að það sé hlustað á hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur því að hún er mjög vel að sér þegar kemur að velferðarmálum, enda formaður hv. velferðarnefndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þau tíðindi sem komu fram í viðtali við hæstv. fjármálaráðherra á Bylgjunni í gærmorgun þar sem ráðherrann atti beinlínis saman þeim sem eiga við líkamlega örorku að stríða og andlega örorku. Hæstv. fjármálaráðherra lætur það út úr sér að maður geti bara sisvona læknast af andlegum veikindum og hafi því ekkert erindi á örorkubætur. Ég veit nú ekki hvaðan hæstv. ráðherra hefur sínar heimildir um sjúkdóma en ég þekki mjög vel til geðsjúkdóma. Faðir minn átti við geðræn vandamál að stríða, blóðfaðir minn, var með schizophreniu og það er ekki sjúkdómur sem þú getur bara sisvona læknað þig af, ekkert frekar en af mænuskaða. Mér finnst hreinlega viðurstyggilegt þegar svona viðhorf koma fram.

Mig langaði að spyrja hv. formann velferðarnefndar hvað þingmanninum finnst um svona orðræðu.