145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, við kölluðum einmitt eftir því á laugardaginn að umræðunni yrði frestað og málið færi aftur til fjárlaganefndar því það eru svo miklar breytingar að verða hér í umræðunni, það hleypur á milljörðum, þannig að þetta er algerlega fráleitt.

En varðandi samanburðinn 2009 og núna þá er það náttúrlega hlálegt og segir okkur bara að hæstv. fjármálaráðherra kann ekki að skammast sín. Ég fór yfir bloggpistil Indriða H. Þorlákssonar þar sem kemur fram að áætlaður niðurskurður á þessu kjörtímabili er meiri en á síðasta kjörtímabili og hver skyldi trúa því? Það er til að hlaða undir þá sem mest hafa í þessu samfélagi. Ég tel að ráðherra ætti í stað þess að vera með þennan hlægilega samanburð að koma hingað og lýsa þeirri stjórnarstefnu að hann sé að skara eld að köku þeirra sem mest eiga, hann sé að draga úr þjónustu við allan almenning á Íslandi og hann eigi að standa keikur með þeirri stefnu sinni, sem mér finnst fyrirlitleg, og verja hana með rökum en koma ekki með einhverjar dylgjur eða vandræðalegar varnarræður um að hann sé að gera betur en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem sat með ríkissjóð í fanginu sem ekki var fyrir séð að mundi ná í gegnum þá erfiðleika sem við stóðum frammi fyrir þá. En það er það sem þessa ríkisstjórn vantar. Hana vantar ekki mannfyrirlitlegu stefnuna sína, nei, svo sannarlega ekki. En hana vantar kjarkinn til að standa fyrir hana, til að segja hún hyggst fyrir og lýsa því af hverju hún vilji hafa það svona. Þeir vita auðvitað að við höfum öll skömm á þessu og þora ekki að færa það fram. Þess vegna eru þeir með þessar dylgjur.