145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti einmitt þessu upp varðandi skerðinguna á samneyslunni sem fram undan er sem er sláandi þegar maður les fylgiritið Stefna og horfur og það er eitt af því sem ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki standa með þegar horft er til frumvarpsins.

En þingmaðurinn kom inn á ótrúlega margt þrátt fyrir stuttan ræðutíma og mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið í andsvörum því eitt af því sem maður leiðir hugann að þegar hugsað er um Landspítalann eða sjúkrahús okkar hvaða önnur úrræði séu í boði. Hvers vegna erum við með fólk í öllum kompum alls staðar á þessum sjúkrahúsum? Það er ekki bara það að þau séu lek, með myglusvepp eða eitthvað slíkt heldur bjóðum við fólki að vera þar vegna þess að önnur úrræði skortir. Fyrir mér lítur þetta þannig út að það sé algert stefnuleysi ríkjandi, sérstaklega í málefnum aldraðra. Það er ekkert sem tekur við og hægagangur hjá ríkisstjórninni. Það á líka við um ungt fólk og húsnæðismálin þannig að þetta er á báða boga. Ef við horfum til unga fólksins og landflóttans þá spyr maður sig hvort sú stefna sem hér er ríkjandi geti verið skýring á því, þegar viðhorf hæstv. ráðherra er að fólk eigi að fara út að vinna hvort sem það getur unnið eða ekki og velferðarkerfið tekur á móti því eins og gert er. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það geti verið hluti af þeirri skýringu og svo að fólk festist á bótum, ungir menn og aðrir, og hvort að það hafi eitthvað með það að gera að aðgangur þeirra að menntaúrræðum sé takmarkaður eða styðji a.m.k. ekki við það.