145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég heyri að forseti hringir inn til atkvæðagreiðslu. Sú afstaða liggur fyrir af okkar hálfu að fundur megi vel standa til miðnættis, þó að hitt sé óhæfilegt að þingmenn séu að tala um sjálf fjárlög íslenska ríkisins að næturlagi. Ég vil bara árétta að fjármálaráðherra lýsti því yfir í morgun að við ættum enn eftir að ræða meginatriðin sem varða fjárlögin. Þess vegna er full efnisleg ástæða til að fara vel í það í dag, og sömuleiðis að ef einhverjar ræður þingmanna Samfylkingarinnar verða fluttar eftir miðnætti verða þær endurfluttar hér í dagsbirtu, enda eiga þær fullt erindi við daginn og nægur tími og réttur til að taka þannig til máls.

Ég sé ekki ástæðu til að þráast við að reyna að koma viti fyrir meiri hlutann og knýja fram breytingar á þessu í atkvæðagreiðslu og geri ekki sérstaka kröfu um atkvæðagreiðslu af þessu tilefni.