145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Árið 2012 var hér alllöng umræða um fjárlög. Þá gengu tveir fyrrverandi þingmenn fyrir ræðustólinn og héldu á skiltum sem á stóð „Málþóf“. Það var 30. nóvember, virðulegur forseti. Nú erum við komin fram í miðjan desember og ljóst að stjórnarandstaðan ætlar að setja Íslandsmet í málþófi, met sem lengi mun standa, líklega um alla framtíð. Við skulum þá gera stjórnarandstöðunni það kleift að setja metið og hafa það það rækilegt að það standist tímans tönn þannig að þessarar stjórnarandstöðu verði helst minnst fyrir það að á sama tíma og ríkisstjórn kynnti fjárlög sem fólu í sér mesta viðsnúning sem sést hefur í seinni tíð í efnahagsmálum og mestu aukningu til velferðar- og heilbrigðismála var eina framlag stjórnarandstöðunnar að setja Íslandsmet í málþófi. Við skulum bara gefa stjórnarandstöðunni sviðið, ég held að við þurfum ekki að halda ríkisstjórnarfundi á meðan á þessu málþófi stendur [Kliður í þingsal.] þannig að þið fáið sviðið, stjórnarandstaða, til að slá Íslandsmet í málþófi, met sem líklega verður aldrei slegið.