145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þm. Helgi Hjörvar kom hér upp áðan og talaði um að stjórnarliðar væru að missa sig verð ég að segja að það liggur alveg ljóst fyrir að það er gríðarlega löng mælendaskrá í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2016. Stjórnarandstaðan finnur mikla þörf hjá sér til að tala um þetta mál og er, eins og bent hefur verið á, á góðri leið með að setja Íslandsmet í málþófi um fjárlagafrumvarp. Við þær aðstæður, þegar stjórnarandstaðan sjálf getur ekki sagt til um hvenær hún er tilbúin til þess að ljúka 2. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016, er ekki hægt að gefa tímasetningar um hvort umræðu ljúki í kvöld, á morgun, hinn daginn eða á laugardaginn, vegna þess að menn eru kannski ekki bara að spá í Íslandsmetið, þeir ætla kannski að slá Evrópumet líka. Við slíkar aðstæður er gríðarlega erfitt annað en að halda hér kvöldfundi og næturfundi. Ábyrgðin á því er öll hjá stjórnarandstöðunni. Það er auðvitað sögulegt út af fyrir sig að hún sé ekki tilbúin til þess að gefa það út hvenær (Forseti hringir.) 2. umr. fjárlaga lýkur. Þess vegna verðum við að hafa hér atkvæðagreiðslu um kvöld- og næturfund.