145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í fyrsta lagi kom fram óformlegum á fundi í gær, að mér skilst, að stjórnarliðar ætluðu að bjóða til fundar, þ.e. þingflokksformenn stjórnarliða ætluðu að boða þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund í dag. Það sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan fer ekki alveg saman við það. Þá spyr maður: Hafa þingflokksformenn ekkert umboð hér til að ljúka þingstörfum? (Gripið fram í.)

Í annan stað, þótt það yrði heimsmet sem stjórnarandstaðan setti, bara til þess að eiga kannski eitt af mörgum metum sem stjórnarliðarnir eiga, þá standa hér úti öryrkjar og eldri borgarar sem hafa krafist þess, hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sem óska eftir því að við tölum fyrir þeirra hönd. Það skiptir máli um hvað er rætt í þessum þingsal. Hin risalanga mælendaskrá sem hv. þingmaður vísar í inniheldur fjóra þingmenn, þar af tvo sem eru í fyrstu ræðu og tvo sem eru í annarri ræðu.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég minni á að enginn hefur beðið um atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar.