145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held engu að síður að það sé lykilatriði að fólk fari að tala saman. Ég held að það sé ástæða til að allir átti sig á því, og mér finnst það alltaf sífellt undrunarefni, að þinglok eru þess eðlis að þá verða flokkarnir að setjast niður og tala saman. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í það hversu fáránlegt það er að maður eigi eitthvað að þurfa að verja það að maður hafi flutt eina ræðu um fjárlögin sem tók 40 mínútur. Það sem er að gerast fyrir framan nefið á okkur er að það eru að skapast aðrar hefðir í 2. umr. um fjárlög. Hérna áður fyrr tók það innan við sólarhring einhverra hluta vegna. Svo gerist það að þessi hefð skapast, hún er að verða til hérna fyrir framan nefið á okkur, þ.e. að þingmenn telja það skyldu sína að leggja sitt í púkkið í umræðu um fjárlög og stjórnarliðar hafa verið að gera það líka. Það er einfaldlega staðan.

Það er þá bara eitt sem verður að gerast við þinglok vegna þess að þá takmarkast tíminn, og það er eitt sem þingmenn hafa, það er málfrelsi, að það verður að útskýra fyrir þeim þingmönnum sem vilja (Forseti hringir.) tala undir þinglok að þeir eigi ekki að tala og það verður einungis gert með samkomulagi, (Forseti hringir.) vegna þess að verið er að ganga á rétt fólks. Ég ætla sjálfur ekki að flytja fleiri ræður um fjárlögin, ég er búinn að segja það sem ég ætlaði að segja. En það eru fjölmargir aðrir sem vilja segja eitthvað meira. (Forseti hringir.) Þá þarf að útskýra fyrir þeim af hverju þeir ættu ekki að gera það.