145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:42]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Óttari Proppé sem sagði áðan að hann hefði ekki verið hérna á síðasta kjörtímabili. Mér gæti eiginlega ekki verið meira sama um eitthvert Íslandsmet eða Evrópumet eða annað, hversu lengi fólk talar í þessari pontu. Gjörið svo vel.

Ég tek líka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, það er kominn tími á að fara að ræða þinglokin, þetta er fullkomlega eðlilegur tími til þess, það hefur verið gert á þessum tíma ár eftir ár.

Ég tek jafnframt undir með kollegum mínum, hv. þingmönnum Þorsteini Sæmundssyni og Össur Skarphéðinssyni, við eigum kannski að sýna meiri ást í þessari pontu hérna. Svo beini ég því til forseta að hann taki núna fundarstjórnina til sín og segi af eða af eða á um hvort þessi atkvæðagreiðsla verði haldin hérna þannig að við getum haldið áfram að ræða málin.