145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil byrja á að segja að ég tek undir með henni, hér úti stendur fólk sem treystir á okkur, kjörna fulltrúa sína, til að standa líka vörð um hag þess. Því er auðvitað miður þegar hæstv. fjármálaráðherra er búinn að lýsa því yfir að engu verði breytt í fjárlögum og hæstv. forsætisráðherra tekur undir það með því að segja að ekkert verði rætt við stjórnarandstöðuna. Það hlýtur þá meðal annars að ná yfir þær tillögur sem við höfum lagt fram.

Það er gjarnan talað um eldri borgara og öryrkja og að það þurfi að horfa á aðra hluti. Hins vegar hefur ekkert komið fram í húsnæðismálum og leigumarkaðurinn er ónýtur, a.m.k. á stórhöfuðborgarsvæðinu, sérstaklega fyrir láglaunafólk. Þar hefur ekkert gerst sem getur stutt við það. Það virðist ekki sérstaklega mikill samhljómur innan ríkisstjórnarinnar hvað þau mál varðar. Það hefur heyrst að Sjálfstæðisflokknum þyki þau of dýr og ekki honum að skapi og fjármálaráðuneytið gefur þeim ekki góða einkunn eins og við þekkjum, þeim hugmyndum sem þó hafa komið fram.

Það er líka margt annað sem eldri borgarar og öryrkjar hafa kallað eftir, það að fella niður virðisaukaskatt á lyfjum, nú þegar verið er að fella niður tolla og ýmislegt fleira. Tekur ekki hv. þingmaður undir að það væri skynsamlegt að fella niður virðisaukaskatt á lyfjum?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um tekjuskattsbreytingar. Telur hún að þær tekjuskattsbreytingar sem hér hafa verið settar fram og virðast vera í ríkisfjármálaáætlun fram undan séu til þess fallnar (Forseti hringir.) að auka kjaragliðnun fyrir utan það samningsrof sem verður núna?