145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það sé atriði sem hægt er að skoða. Ríkisstjórnin hefur satt að segja verið alveg ótrúlega einbeitt í því að refsa lágtekjufólki með öllum skattbreytingum sem hún hefur áður stigið á þessu kjörtímabili og engar af skattbreytingunum hennar hafa komið öðruvísi út en neikvætt heildrænt séð fyrir lágtekjufólk.

Það er nefnilega alveg hægt að gera þetta eins og hv. þingmaður bendir á, að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar og til þess að mæta sérstökum kostnaði þeirra sem höllum fæti standa. Hæstv. fjármálaráðherra hefur svo oft sagt þegar ég hef gagnrýnt hann fyrir að engar skattbreytingar nýtist þeim sem eru með undir 250 þús. kr.: Ja, það fólk borgar engan skatt til ríkisins.

Það borgar auðvitað virðisaukaskatt af ýmsum aðföngum og það er alveg hægt að finna leiðir til þess með flokkun. Til þess hafa menn ólík virðisaukaskattsþrep, til að mæta sérstökum kostnaði sem bitnar þyngst á þeim sem höllustum fæti standa.

Þegar maður horfir á skattbreytingarnar heildstætt séð þá er búið að ráðast nokkrum sinnum í tekjuskattsbreytingar og það er búið að ráðast í mjög víðtækar breytingar á gjaldtöku af stórfyrirtækjum. Nú er verið að fella niður raforkuskattinn á stóriðjuna, það er búið að lækka veiðigjöldin og hlífa ferðaþjónustunni við að innheimta gjald af ferðamönnum. En allar þessar breytingar, og þá sérstaklega breytingarnar af óbeinu sköttunum og hlutdeild matarskattsins í þeirri breytingu, hafa bitnað á fólki með ráðstöfunartekjur undir 250 þús. kr. og það hefur ekki fengið neitt af tekjuskattsbreytingum. Tekjuskerðingarmörk í barnabótakerfinu hafa ekki verið hækkuð þannig að fólk byrjar jafnvel að skerðast þar við 200 þús. kr. Ef allt þetta er dregið saman þá hefur ríkisstjórnin staðið fyrir skattbreytingum sem nýtast meðaltekjufólki. Ég er ekki að segja að meðaltekjufólk sé ofhaldið af sínum hlut að öllu leyti, en það er eftirtektarvert að lágtekjufólk, þar með auðvitað lífeyrisþegar, skuli vera skilið svona fullkomlega eftir.