145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að vinnumarkaðurinn hefur engin sérstök úrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu eða sérstaklega þennan unga hóp sem okkur er svo tíðrætt um. Mér finnst það líka lýsa ófyrirleitni af hálfu fjármálaráðherra landsins að koma hingað og gera þennan hóp að umtalsefni, láta að því liggja að vegna þess að hann sé til þá réttlæti það að halda öllum öðrum, lífeyrisþegum, öldruðum sem og örorkulífeyrisþegum, í fátæktargildrum án þess að hann geri nokkuð að öðru leyti eða leggi nokkurt fé í nokkurt átak til að fækka í þeim hópi. Hvar eru peningarnir í það? Nei, nei, það er verið að fækka í framhaldsskólunum, ekki fjölga. Það er verið að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldri. Það eru engin ný úrræði búin til af hálfu Vinnumálastofnunar eða af hálfu félagsþjónustunnar með tilstyrk ríkisvaldsins. Það er ósvífið af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að gera sér ógæfu þessa fólks í pólitískum leikaraskap hér að vopni án þess að koma með eina einustu úrbótatillögu.