145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um hvorn þáttinn um sig, þá er það rétt sem hv. þingmaður rifjar upp að ýmis orð voru látin falla af hálfu ráðherra í ríkisstjórn, þeirra ráðherra sem hv. þingmaður vísar til, í garð umboðsmanns Alþingis þegar fram fór umrædd könnun að frumkvæði umboðsmanns Alþingis. Við litum það mörg alvarlegum augum og slógum upp varðstöðu fyrir embættið.

Ég vil hins vegar ekki leggja þessi mál að jöfnu. Ég hygg að ástæðan fyrir því að ekki hefur enn verið horft til óska umboðsmanns Alþingis séu tilraunir til sparnaðar almennt. Það hefur verið þrengt nokkuð að embættinu í tímans rás og menn viljað knýja það inn í annars konar vinnubrögð, knappari vinnubrögð og það hefur tekist mjög vel. En þegar kemur að þessu þá hygg ég að þverpólitísk samstaða sé í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fulltrúa allra flokka, um að rétt sé að efla þessa stofnun.

Allt annar handleggur er þegar kemur að Ríkisútvarpinu. Það er eiginlega alveg merkilegt og mér óskiljanlegt hvers vegna sú óvild sem er ríkjandi í stjórnarherbúðunum í garð þeirrar stofnunar er eins og raun ber vitni. Mér finnst það gersamlega óskiljanlegt mál og þar tel ég að um sé að ræða hreina herferð gegn þessari stofnun sem við verðum að reyna að hrinda.