145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur mér svolítið á óvart að hlusta á orðaskipti hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar því þeir tala um að þrengt hafi verið að umboðsmanni Alþingis. Það stenst náttúrlega ekki ef menn skoða tölurnar. Einnig tala þeir um einhverja herferð gegn RÚV. Það var nú bara í fjáraukanum að samþykkt var að setja 1,5 milljarða til að lækka skuldir félagsins. Einnig fékk það aukaframlagið þrátt fyrir að hafa ekki uppfyllt skilyrði þar um, 180 millj. kr., og í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa framlögin verið að aukast eins og allir vita sem vilja vita þannig að ég átta mig ekki alveg á þessu en látum það liggja á milli hluta.

Hv. þingmaður talar um að hann sé algerlega á móti því að fjármagn fylgi sjúklingi. Nú eru ákveðnar stofnanir með slíka samninga, t.d. Heilsugæslan Salahverfi í Kópavogi sem er heilsugæslustöð þar sem fjármagn fylgir sjúklingi. Það er þá eðlilegt að álykta sem svo og ég spyr hvort ég sé nokkuð að mistúlka hv. þingmann þegar ég segi að hann hlýtur að vera á móti því kerfi sem er í Salahverfinu. Einnig hafa forustumenn Landspítalans kallað mjög eftir því, allir, að það verði blönduð fjármögnun á spítalanum. Því miður er það fyrirkomulag ekki enn þá komið til framkvæmda en við skulum vona að við sjáum það núna, það er að norrænni fyrirmynd, þá fylgir fjármagn aðgerðum og fylgir þá í rauninni sjúklingum auðvitað líka. Þá spyr ég hv. þingmann að þessu tvennu, hvort ég skilji hann ekki rétt að hann sé ósammála forustumönnum spítalans hvað varðar blandaða fjármögnun og þar af leiðandi að fjármagn fylgi sjúklingi og sömuleiðis að hann sé ósáttur við það fyrirkomulag sem er í Salahverfinu.