145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, við erum að tala máli réttlætis varðandi aldraða og öryrkja en hér hefur verið í dag um mikla útúrsnúninga að ræða. Við heyrðum varaformann fjárlaganefndar svara mér í andsvari fyrir stundu. Ég var að færa rök fyrir því að það vantaði 3 milljarða í rekstur Landspítalans, 3 milljarða til að hann gæti sinnt nýjum sjúklingum sem kæmu til sögunnar á ári hverju vegna fjölgunar og öldrunar í þjóðfélaginu. Ég var að reyna að færa rök fyrir þessu. Hver var niðurstaða varaformanns fjárlaganefndar Alþingis? Að ég væri ósammála forsvarsmönnum Landspítalans um fjármögnun. Þó hafði ég varið miklum tíma ræðu minnar í að reyna að skýra á hvaða forsendum ég vildi koma til móts við þeirra óskir og kröfur og ég hygg að ég sé þar miklu fastari á báti en varaformaður fjárlaganefndarinnar.

Hvort þeir hafi gleymst eða hvort þetta sé ásetningur. Þeir gleymdust ekki vegna þess að skólakerfið sem gleymdist er lagað af því að það gleymdist. Öryrkjar og aldraðir, það eru engin merki þess að bæta eigi kjör þeirra eða laga þá meintu villu vegna þess að það var engin villa. Þetta er ásetningur, því miður.