145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra kemur hér vælandi í ræðustól og kvartar undan því að stjórnarandstaðan sé ekki málefnaleg. Hvað er það sem stjórnarandstaðan er að gera? Hún er að berjast fyrir réttindum aldraðra og öryrkja. Hún er að reyna að knýja ríkisstjórnina til að láta af villu síns vegar og sjá til þess að aldraðir og öryrkjar séu ekki settir hjá, eini hópurinn sem ekki fær bætur með svipuðum hætti og aðrir.

Og hvað segja hv. þingmenn Framsóknarflokksins? Hvað segir hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir sem situr hér úti í sal og þarf að sitja undir þessum ósköpum og horfa upp á sinn eigin hæstv. forsætisráðherra hrista hausinn eins og honum sé algerlega sama um aldraða og öryrkja. Það er út af þessu sem stjórnarandstaðan stendur í ístaðinu, stendur í ræðustól til að láta þessa háu herra vita það að aldraðir og öryrkjar eiga sína sterku málsvara á Alþingi Íslendinga. Og ég spyr hv. þingmann aftur sömu spurningar og ég spurði hið fyrra sinn varðandi auknar fjárveitingar til Landspítalans: Telur hann að það komi til greina að stjórnarandstaðan láti nótt sem nemur og fari heim til jólahalds nema það komi eitthvað meira til Landspítalans?