145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Ég tel það vera grundvallaratriði að gerðar verði breytingar á fjárlagafrumvarpinu í þá veru sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar fyrir.

Við ætlum ekki að fara að reka Landspítalann á þann veg sem nú blasir við með uppsögnum og samdrætti í þjónustu. Það er veruleikinn sem er fram undan ef þarna verður ekki bætt úr.

Ég verð líka að segja að mér finnst það ósæmilegt ef Alþingi samþykkir fjárauka- og fjárlög sem koma ekki til móts við það fólk sem er hér utan dyra að berjast fyrir sínum kjörum og að berjast fyrir réttlæti. Að sjálfsögðu eigum við að standa með þessu fólki því þannig stöndum við með sjálfum okkur og íslensku samfélagi.