145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er nefnilega málið. Eins og með svo margt annað er verið að smygla hér í gegnum fjárlög ýmsum kerfisbreytingum sem er auðvitað mjög miður. En varðandi þessi skattamál, í Stefnum og horfum, í litla ritinu sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, á bls. 93 og 94 þar sem eru ágætar myndir, kemur einmitt fram að verið er að skera niður tugi milljarða og það er fram undan. Það er í rauninni merkileg pólitík en það er kannski hægri pólitík, sú hugmyndafræði sem kemur þar best í ljós, að draga úr samneyslunni. Velferðarmálin eru auðvitað þar stærst og fyrirferðarmest. Það lítur þannig út á þessum tveimur myndum á bls. 93 og 94 að það sé verið að skera niður samneysluna um 60–70 milljarða frá því sem hún var fyrir hrun miðað við núverandi verðlag og landsframleiðslu. Það er ekkert smáræði, virðulegi forseti. Við skárum niður um 1,5%. Menn hafa gjarnan verið að miða við hvað síðasta ríkisstjórn gerði og svo sú sem nú situr og fólk leyfir sér að bera saman ástandið hér 2009 og núna 2015 sem er allt, allt annað, sem betur fer, að mörgu leyti. Í rauninni er verið að skera niður til viðbótar um 2% af vergri landsframleiðslu á meðan við skárum niður um 1,5% í öllu því ástandi sem var. Mér þykir umræðan svolítið úti í hafi.

Mig langar að víkja að öðru, þ.e. varðandi þá sem eiga við erfiðleika að etja, geðræn vandamál eða önnur slík. Hér eru sjúkrahúsin yfirfull, bæði hér og fyrir norðan, af fólki sem á í rauninni ekki heima þar. Mér finnst vanta stefnu í öldrunarmálum. Mér finnst ekki vera komin fram nein stefna í öldrunarmálum. Ég fékk nú ítarlegt (Forseti hringir.) svar við fyrirspurn minni varðandi þau mál, sem er þó miklu ódýrari (Forseti hringir.) kostur þegar fram í sækir en að vera með fólk í dýrustu plássunum, fyrir utan (Forseti hringir.) það svo að margt fólk fer bara ekki til læknis vegna þess að það á ekki fyrir því.