145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það alveg ljóst að hér er blandaður rekstur, einkarekstur og opinber rekstur. Hins vegar erum við náttúrlega með opinbert kerfi að því leytinu til að allt er þetta meira og minna borgað úr ríkissjóði. Að því leytinu til er kerfið opinbert. Að vísu hefur mikið aukist undanfarin ár hvað sjúklingar þurfa að greiða sjálfir. Ég tel það sérstakt rannsóknarefni að skoða betur hvernig því er háttað.

Það sem mér finnst vont við þá umræðu sem núna er uppi er að við vitum ekki alveg hvað menn eru að hugsa. Mér finnst það þurfa að koma upp á yfirborðið. Mér finnst ráðherra heilbrigðismála þurfa að gera þinginu og okkur grein fyrir hvað hann er að hugsa og hvert inntakið er. Er ekki sagt að það eigi að bjóða út þrjár heilsugæslustöðvar? Eru það nýjar stöðvar? Ég veit það ekki. Eru það einhverjar af þeim stöðvum sem núna eru starfræktar? Ég veit það ekki heldur. En ég hlýt að velta vöngum yfir því vegna þess að það á ekkert nýtt fjármagn að koma inn í heilsugæsluna. Samt er það eitt af því sem er nauðsynlegt að gera, þ.e. að auka við heilsugæsluna, svo að fólk geti farið þangað fyrst og heilsugæslan verði hliðið að allri annarri heilbrigðisþjónustu í landinu. Það skiptir gífurlega miklu máli. En við vitum ekki hvernig ráðherra ætlar að fara að því. (Forseti hringir.) Því miður eru lögin þannig að hann getur meira og minna ákveðið þetta sjálfur og þarf ekki að spyrja þingheim.