145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi oft Landspítalann og heilbrigðiskerfið í ræðu sinni enda er full ástæða til þess. Í breytingartillögu minni hlutans er að finna tillögur til þess að fjármagna Landspítalann betur. Sömuleiðis segja stjórnarliðar og sér í lagi hæstv. ráðherrar mjög gjarnan að þeir séu að styrkja kerfið meira en hitt og þetta. Ég velti fyrir mér í ljósi umræðunnar að enginn virðist vera á móti því að styrkja heilbrigðiskerfið en menn hafa hins vegar ólíka sýn á hvað það þýðir. Ég velti fyrir mér hvort það snúist aðallega um upphæðir eða hvernig féð skuli nýtt, hvernig það sé eyrnamerkt, hvort það eigi að fara í t.d. Landspítalann eða eitthvert annað í kerfinu.

Mér finnst satt best að segja heldur óljóst nákvæmlega hvers vegna ágreiningur er um það hvort verið sé að styrkja heilbrigðiskerfið eða ekki. Það er eitthvað sem maður hefði haldið að væri spurning um staðreyndir, en eins og oft er þegar málefnið er flókið og skjölin stór þá er það ekki jafn augljóst og maður mundi halda í fyrstu atrennu.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, þar sem hann er sérlegur áhugamaður um að fjármagna heilbrigðiskerfið okkar þannig að sómi sé að, hvað hann telji að þurfi til þess að standa vel að heilbrigðiskerfinu. Ég spyr sömuleiðis sérstaklega um Landspítalann þótt heilbrigðiskerfið sé í mínum huga vissulega meira en Landspítalinn. Í tillögum minni hlutans er að finna upphæðir upp á einhverja milljarða. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að heilbrigðiskerfið yrði fjármagnað nógu vel til þess að það mundi mæta þeim kröfum og þeim væntingum sem íslenska þjóðin gerir til þess?