145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spyr mig út í heilbrigðiskerfið og Landspítalann, fjármögnun á því og ólíka sýn. Ef ég skildi hann rétt vilja allir reka góðan Landspítala og gott heilbrigðiskerfi. Það viljum við öll. Hingað til hefur það verið fjármagnað af tekjum ríkissjóðs með sköttum og öðru og við höfum verið sátt við það að stærstum hluta. Þetta verða 50 milljarðar á næsta ári. Ég ræddi hér um að miðað við þau gögn sem við fáum frá spítalanum, m.a. forstjórapistlana sem forstjórinn ritar á öllum föstudögum, þá vantar að lágmarki 3 milljarða inn í kerfið eins og það er í dag. Þess vegna fór ég vel yfir það í upphafi máls míns og rakti hvernig þetta yrði ef tekið væri tillit til annarra liða. Þá sjáum við að það hefur ekki verið tekið á málum eins og ríkisstjórnarflokkarnir hæla sér af núna. Það er einfaldlega rangt ef tekið er tillit til allra þátta.

Til dæmis þýðir fjölgunin, sem ég fór yfir í ræðu minni, um 1,7% á ári og það þýðir ekkert að loka augum fyrir því að við þurfum að fjármagna heilbrigðiskerfið og þá sérstaklega þjóðarsjúkrahúsið, Landspítalann sem við ætlum að byggja upp með mikilli reisn og hafa góðan fyrir alla landsmenn, ekki ætlum við að byggja Landspítala og hátæknisjúkrahús um allt land, það á að vera hér, og við þurfum að bæta við það og gera það betur en gert er.

Við sem lentum í því á síðasta kjörtímabili að skera ótæpilega niður á öllum vígstöðvum út af miklum halla á ríkissjóði sögðumst alltaf ætla að skila þessu til baka um leið og betur áraði. Það gerir það núna og þess vegna setjum við öll í minni hlutanum þá skoðun okkar fram í breytingartillögum. Það er í raun og veru hárrétt hvað það varðar. Mér er það óskiljanlegt af hverju meiri hlutinn fer ekki í þá göngu. Ég held (Forseti hringir.) að það skipti í raun og veru engu máli hvort ríkissjóður skili 11 milljarða afgangi á næstu árum eða 8 eða 9, fyrir (Forseti hringir.) utan að við vitum að það eiga eftir að koma tekjur í ríkissjóð á næsta ári sem eru vantaldar og (Forseti hringir.) það var sennilega viljandi sem þær voru ekki settar þarna inn.