145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta er áhugavert að ræða. Ég er búin að fara yfir nokkur málefni í fjárlagafrumvarpinu og ætla að halda því áfram. Eðli málsins samkvæmt er skattapólitíkin mér hugleikin. Ég hef áhyggjur af því fólki sem keypti skuldaniðurfærsluleið framsóknarmanna. Ég hef áhyggjur af því hver staða þess er í rauninni núna því að slíkar þensluhvetjandi skattalækkanir sem lagt var upp með og sagt að væru kjarabætur eru nokkuð sem Seðlabankinn styður ekki og hefur varað við. Auðvitað á að styrkja innviði samfélagsins mun frekar og enn betur en hér er gert í stað þess að halda áfram að lækka skatta. Þetta er ekki pólitík sem skilar árangri. [Kliður í þingsal.] Það er búið að láta reyna á það, það þarf ekki að gera það aftur. (Gripið fram í: Uss.)

Ég hef trú á því að hluti af skýringunni á því að unga fólkið okkar er að fara sé því miður vegna þess að það nær ekki endum saman. — Strákar, farið fram, virðulegu ungu menn, og ræðið málin þar ef þið getið ekki haft hljóð í þingsalnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) — Unga fólkið hefur ekki tækifæri til þess að fjárfesta hér vegna þess að það hafa ekki komið fram nein haldbær frumvörp sem lúta að húsnæðismálum þrátt fyrir að áliðið sé á kjörtímabilið. Það virðist ekki geta staðið í því að leigja. Eins og við vitum er leigumarkaðurinn ekki góður. Það hafa ekki komið fram úrræði þar heldur. Það þarf að kanna betur hvað er þess valdandi að yngra fólk flyst í burtu. Það væri líka áhugavert að skoða samsetninguna þeirra sem flytja til landsins, þ.e. menntun og atvinnu og annað því um líkt.

Ég ætlaði að fara í innviðamálin. Við lögðum fram sameiginlegar tillögur þar sem mjög margt er undir í sjálfu sér. Þar eru innviðafjárfestingar, sóknaráætlanir, Vegagerðin og ýmislegt sem við höfum komið fram með. Ef ég horfi bara nærri mér hef ég áhyggjur af ákveðnum þáttum í mínu kjördæmi í ljósi þess að engin samgönguáætlun hefur litið dagsins ljós og ekki hefur fengist samþykkt það sem hér var lagt fram. Þær fjárveitingar sem eru í breytingartillögu meiri hlutans eru frekar handahófskenndar en að þær hafi allar verið í einhverri forgangsröð hjá Vegagerðinni. Sumar voru alls ekkert á áætlun heldur virðast þær hafa snúist um hver hafi aðgang að hverjum eða í hvaða kjördæmi viðkomandi á heima eða eitthvað slíkt. Það lítur alla vega þannig út þegar horft er yfir þessar tillögur, því miður.

Í mínu kjördæmi er til dæmis þjóðvegur 1 ekki að fullu frágenginn og malbikaður. Ég er að tala um Berufjarðarbotn, veg sem hæstv. innanríkisráðherra sagði á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í haust að yrði settur milljarður í, þ.e. að hafist yrði handa við að bjóða út og hefja þessa framkvæmd enda væri hún afar mikilvæg, ekkert stæði í vegi fyrir því að bjóða út malbikunina og framkvæmdirnar mundu svo klárast 2017. Við erum að tala um umferðaröryggi. Þarna fer skólabíll og fleiri og þarna hafa orðið slys. Svo vægt sé til orða tekið er þetta afar slæmur kafli. Þetta er þjóðvegur 1.

Sama á í rauninni við um Langanesbyggð og fleiri staði og auðvitað víða um land þar sem menn hafa ekki fengið hljómgrunn fyrir fjárveitingar hjá meiri hluta fjárlaganefndar, eðlilega, þetta eru stórar framkvæmdir. Þær eiga að fara í gegnum samgönguráð og samgönguáætlun. Það á ekki að veita fé eins og hér er gert, að mínu mati. Ég vil að þetta fari í gegnum hið lögformlega ferli og fari eftir forgangsröð sem Vegagerðin hefur sett í samráði við samgönguráð. Ég hef áhyggjur af því að þetta sé gert með þessum hætti.

Samgöngustofa hefur beðið um fjármuni til að tryggja öryggi sjómanna. Það er ekki sett inn þarna. Það er margt svona sem má segja að sé ekki í lagi.

Það er líka eitt mál sem mér er hugleikið og snýr að innviðum, það eru endurbætur varðandi fráveitu. Það voru endurgreiðslur þegar farið var í erfiðar fráveitur, en sérstaklega er það erfitt eins og í Skútustaðahreppi þar sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir endurbótum á sinni fráveitu í Reykjahlíð og næsta nágrenni. Við skulum athuga að þar liggur landið hvergi að sjó þannig að þetta er ekki einfalt mál. Þetta er afar dýrt fyrir svona lítið samfélag og í rauninni ekki á færi þess. Það er búið að vinna skýrslu og fara í frumhönnun og kostnaðarmat. Það er alveg nauðsynlegt upp á verndun Mývatns og Laxár að farið verði í þá þriggja þrepa hreinsun sem þarf að fara þar fram til þess að uppfylla ákvæði reglugerðar. Sveitarfélögin sem standa frammi fyrir svona þurfa aðstoð. Þau eru of lítil til þess að geta gert þetta ein og sér. Þetta er ein af ferðamannaperlum okkar Íslendinga sem okkur ber að standa vel að.

Ég get tekið örfá dæmi úr mínu kjördæmi. Eins og ég nefndi sérstaklega varðandi vegaframkvæmdir þá á hið sama auðvitað við mun víðar. Skýrasta dæmið er að það liggja ekki neinar áætlanir fyrir.

Varðandi fjárfestingu þá hef ég áhyggjur af henni. Hún er í lagi núna en svo dettur hún niður. Ef maður horfir á ríkisfjármálaáætlunina þá er ekki tekið tillit til neins annars en einhverra stóriðjuverkefna. Það er í rauninni ekkert sem mælt er með varðandi aðra atvinnuvegafjárfestingu, t.d. nýsköpun eða annað slíkt, hugbúnaðariðnaðinn, tæknina eða sprotann eins og við þekkjum hann og köllum, þekkingariðnaðinn. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi. Auðvitað höfum við áhyggjur af því þegar horft er á mengandi stóriðju, ég tala nú ekki um í ljósi þess sem var verið að samþykkja í loftslagsmálum á Parísarráðstefnunni. Þetta á ekki heima í nútímasamfélagi, þ.e. að horfa eingöngu á slíka uppbyggingu.

Ég tek eitt og annað fyrir. Í tillögu minni hlutans er líka verið að tala um vaxtabætur og barnabætur o.fl. Eins og ég hóf mál mitt á þá er talað um 80 milljarða skuldaniðurfellingu en vaxtabætur eru að lækka og það er varhugavert að leggja það að jöfnu að það sé vegna þess að skuldastaðan hafi einungis batnað. Fasteignamatið hefur líka hækkað. Það bætir eignastöðuna en lagar ekki greiðslustöðu fólks. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Það er ekkert auðveldara að greiða af lánunum, en bæturnar lækka. Það þýðir auðvitað bara það að heimilið er að greiða meira af launum í lánin en áður var. Við þurfum því að spyrja okkur: Hvert var markmið þessara vaxtabóta? Hækkun eignaverðs á ekki að leiða til þess að lækka vaxtabætur að mínu mati. Mér finnst það rangt hjá ríkisstjórnarflokkunum og talsmönnum þeirra að setja þetta fram með þeim hætti að það eitt og sér breyti öllu fyrir fólk.

Svo eru það barnabæturnar: Við þurfum að hækka viðmiðin, það er ekki í lagi að þau skerðist svona snemma því að bæturnar fær yngsta fólkið okkar sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðið og vinnur mikið til þess að það sé framkvæmanlegt á þessum tímum þegar ljóst er að fáir geta tekið óverðtryggð lán. Því miður er umhverfi okkar þannig að enn er sú klemma til staðar að fólk borgar of stórt hlutfall af launum sínum í vaxtakostnað húsnæðis. Svo er auðvitað verðtryggingin sem hefur ekki verið afnumin eða það lagt til þrátt fyrir stór loforð. Ég er svo sem ekkert endilega fylgjandi því að hún verði alfarið afnumin, ég hef ekki áttað mig á því hvort það er hin eina sanna og rétta leið, en vissulega þurfum við eitthvað að gera og einhverju að breyta í peningastefnu okkar, sérstaklega kannski því er varðar vaxtakjör fólks.