145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé í fyrsta skipti í minni þingsögu, frá því 1999, að ég hef ekki gert samgöngumál að umtalsefni við fjárlagagerð. Ég þakka því hv. þingmanni fyrir að taka þau til umræðu og gefa mér tækifæri til að ræða þau mál við hana hér í andsvari.

Í stuttu máli er það þannig að ríkisstjórnin hefur gefist upp á almennri samgönguáætlun. Hún lagði síðastliðið vor fram samgönguáætlun um ekki neitt. Sem dæmi um það, og sem rökstuðningur fyrir því, eru á norðursvæði, sem við þekkjum bæði, 200 milljónir áætlaðar á næsta ári til samgönguframkvæmda. Þar af eru 50 milljónir í undirbúning verka utan áætlunar sem er venjubundið, rannsóknir og annað slíkt; 100 milljónir í öryggisaðgerðir á Akureyri og 50 milljónir í Jökulsá og Skjálfandafljót, það verður svakalega mikið gert fyrir þær 50 milljónir. Samtals eru það 200 milljónir á næsta ári.

Ef við förum yfir í austursvæðið þá er það lítið eitt meira. Þar eru 668 milljónir áætlaðar á næsta ári. Þar af eru, að mér sýnist, einar 300 milljónir á Hornafirði sem hingað til hefur verið sett undir suðursvæðið. Þetta er staðfesting á því sem ég segi, að samgönguáætlun er um lítið sem ekki neitt. Nú er örlítið verið að bæta við með 235 milljónum.

Meiri hlutinn segir, með leyfi forseta:

„Með óbreyttum fjárframlögum tekur áratugi að endurbæta vegi og koma á viðunandi samgöngubótum.“

Það er verið að tala um malarvegi til sveita og annað slíkt.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í það sem hún gerði að umtalsefni í kjördæmavikunni á norðaustursvæðinu — við fórum þar um nokkrir þingmenn, aðra vantaði — en það eru þær brýnu framkvæmdir sem þar eru. Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann af því að hún situr í fjárlaganefnd: Hvað er það nákvæmlega sem verið er að setja inn þarna fyrir utan samgönguáætlun? Við vitum að þegar umhverfis- og samgöngunefnd ætlaði (Forseti hringir.) að auka við síðast þá kom bara stopp frá ráðherranum, þetta verður ekki gert og samgönguáætlun dagaði uppi. En hvað er verið að gera núna?